Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1191, 152. löggjafarþing 590. mál: aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð).
Lög nr. 41 22. júní 2022.

Lög um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980 (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð).


1. gr.

     Á eftir 53. gr. a laganna kemur ný grein, 53. gr. b, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 56. gr. er við veitingu þjónustu á grundvelli 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, í undantekningartilvikum heimilt að haga vinnutíma starfsmanna sem veita þjónustuna þannig að starfsmennirnir fái styttri hvíld en kveðið er á um í 1. mgr. 53. gr. og getur vinnutíminn þá varað samfellt í allt að 48 klukkustundir að hámarki, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
  1. Fyrir liggi samningur milli þess sveitarfélags sem í hlut á og hlutaðeigandi umsýsluaðila um vinnufyrirkomulag starfsmanna samkvæmt þessari málsgrein sem byggist á mati sveitarfélagsins þar sem m.a. kemur fram mikilvægi þess fyrir notanda umræddrar þjónustu að vinnutíma starfsmanna sem veita þjónustuna sé hagað með þeim hætti sem um getur í þessari málsgrein. Skal að minnsta kosti annað af eftirfarandi atriðum vera til staðar:
    1. Það geti valdið röskun á aðstæðum notanda þjónustunnar sem í hlut á sem leitt geti til andlegs og/eða líkamlegs álags á viðkomandi, svo sem óöryggis eða kvíða, verði vinnutíma starfsmanna sem veita þjónustuna hagað skv. 1. mgr. 53. gr.
    2. Um sé að ræða tímabundnar breytingar á aðstæðum notanda þjónustunnar sem í hlut á, svo sem tímabundið ferðalag fjarri heimili, sem leiða til þess að þjónustuþörf viðkomandi breytist þannig að tímabundið sé nauðsynlegt fyrir viðkomandi að vinnutíma starfsmanna sem veita þjónustuna verði hagað með þeim hætti að þeir fái styttri hvíld en kveðið er á um í 1. mgr. 53. gr.
  2. Starfsmenn hafi fullnægjandi hvíldaraðstöðu og geti hvílst að lágmarki í sjö klukkustundir samfellt á næturvinnutíma skv. 3. tölul. 52. gr. sem fellur innan vinnutímans, og einungis er gert ráð fyrir tveimur rofum á hvíldinni að hámarki á því tímabili í tengslum við veitingu þjónustunnar.
  3. Fyrir liggi áhættumat skv. 65. gr.

     Þegar vinnufyrirkomulag starfsmanna er skv. 1. mgr. skal við það miðað að starfsmennirnir fái eins fljótt og við verður komið samsvarandi hvíldartíma og mælt er fyrir um í 1. mgr. 53. gr.
     Endurnýjun samnings sem gerður er með vísun til a-liðar 1. tölul. 1. mgr. skal koma til skoðunar samhliða stöðumati á framkvæmd þjónustu skv. 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, sbr. 22. gr. reglugerðar um notendastýrða persónulega aðstoð, nr. 1250/2018, og skulu forsendur samningsins þá jafnframt endurskoðaðar, sbr. 1. mgr. Gildistími tímabundins samnings sem gerður er með vísun til b-liðar 1. tölul. 1. mgr. getur verið allt að þrír mánuðir.
     Það sveitarfélag sem í hlut á og hlutaðeigandi umsýsluaðili skulu láta Vinnueftirliti ríkisins í té þær upplýsingar og þau gögn sem stofnunin telur nauðsynleg til að henni sé unnt að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæðis þessa. Starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði starfsmanna sem veita þjónustu á grundvelli 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, og ber starfsmönnum Vinnueftirlitsins að sýna sérstök skilríki við slíkt eftirlit sem stofnunin gefur út.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð, í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, samtök aðila vinnumarkaðarins og Vinnueftirlit ríkisins sem og að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd ákvæðis þessa, svo sem um hve oft er unnt að haga vinnutíma starfsmanns með þeim hætti sem um getur í 1. mgr. innan tiltekins tímabils og þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt hverju sinni þannig að heimilt sé að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 56. gr. á grundvelli ákvæðis þessa, þ.m.t. hvað varðar hvíldaraðstöðu starfsmanna.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt bráðabirgðaákvæði, svohljóðandi:
     Ráðherra skal eigi síðar en fyrir árslok 2025 hefja endurskoðun á 53. gr. b í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, samtök aðila vinnumarkaðarins og Vinnueftirlit ríkisins og skal þeirri vinnu lokið í síðasta lagi fyrir árslok 2026.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2022.